Erlent

Neyðarástand í Sómalíu vegna flóða

MYND/AP

Sameinuðu þjóðirnar báðu aðildarþjóðir í dag um styrk að verðmæti 18 milljónum dollara, eða 1.3 milljarða íslenskra króna, til þess að hjálpa þeim sem hafa orðið heimilislausir vegna hinna gríðarlegu flóða í Sómalíu undanfarið.

Er talið að þetta séu ein verstu flóð í Afríku undanfarna áratugi og bætast þau þá ofan á ástandið í landinu en það hefur enga virka stjórn eða grunnþjónustu. Flóðin koma í kjölfar gríðarlegra þurrka á síðasta ári og talið er að um 350.000 manns hafi þurft að flýja heimili sín nú þegar og að talan gæti orðið um 900.000 ef rigningar halda áfram.

Peningarnir eiga að fara í að sjá fyrir hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu, mat, menntun, heilsugæslu og aðrar grunnþarfir. Þegar hafa Sameinuðu þjóðirnar eytt um 10 milljónum dollara, eða um 700 milljónum íslenskra króna, í verkefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×