Innlent

Það er vont, en það venst

Frumvarpi um málefni RUV ohf. hefur verið frestað á Alþingi og er nú ljóst að ekki verður af afgreiðslu þess fyrr en á vorþingi. Það er vont, en það venst, segir útvarpsstjóri varðandi áframhaldandi óvissu um málefni stofnunarinnar. Í morgun hófst á Alþingi önnur umræða um málefni Ríkisútvarpsins ohf, en ákveðið hefur verið að fresta þriðju umræðu þessa umdeilda frumvarps þar til í janúar. Frumvarpið verður sent til umræðu menntamálanefndar í millitíðinni.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir biðina eftir niðurstöðu orðna langa en einn mánuður til viðbótar sé ekki stór keppur í þessari sláturtíð.

Samfylkingin leggst gegn því að Ríkisútvarpið verði að hlutafélagi en á blaðamannafundi sem þingflokkinn stóð fyrir í morgun komu fram hugmyndir að breytingu á frumvarpinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn vera á móti því að RUV verði gert að hlutafélagi. Hún segir það óeðlilegt að almannaútvarp sem nýtur sérstakra tekjustofna geti nýtt sér það í samkeppni. Eðlilegra sé að stofna sjálfseignarfélag sem lúti öðrum lögmálum en aðrir miðlar á markaði.

Samfylkingin leggur til að rjúfa áhrif ríkisstjórnarmeirihluta hverju sinni á starfsemi RUV, með því að Alþingi kjósi stjórn þess, en í henni eigi auk þess starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa.

Þá telur Ingibjörg að ekki eigi að afnema auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins heldur sé eðlilegt að setja þak upp á fimmtán til tuttugu prósent á auglýsingatekjur. Hún segir auglýsingar vera upplýsingar og Ríkisútvarpið hafi skyldu til allra landsmanna. Samfylkingin telji ekki ástæðu til að banna auglýsingar, en eðlilegt sé að setja mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×