Innlent

Björn Bjarnason gagnrýnir brottflutning varnarliðsins

Olíu- og gaslindir í Barentshafi
Olíu- og gaslindir í Barentshafi MYND/ russiablog.org

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra lagði áherslu á þátt NATO í öryggi siglingaleiða á Norður-Atlantshafi í ræðu sem hann hélt í Aþenu í dag. Björn gagnrýndi um leið brotthvarf Bandaríkjahers frá Íslandi í þessu samhengi.

Í ræðunni ræddi Björn þróun orkuvinnslu á Norðurslóðum og auknar siglingar risaskipa með gas og olíu yfir Norður-Atlantshaf, og sagði að Íslendingar hefðu brugðist við þessari þróun með því að efla landhelgisgæslu sína.

Björn sagði einkennilegt, að Bandaríkjamenn hefðu horfið með hernaðarlegan viðbúnað frá Íslandi, þegar litið væri til þess, sem Richard Lugar, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefði sagt nýlega um mikilvægi þess fyrir Bandaríkin að tryggja orkuöryggi sitt sem best, þar á meðal á flutningaleiðum olíu.

Björn lýsti því, hvernig rússneska fyrirtækið Gazprom hefði svo til fyrirvaralaust breytt um stefnu við gasvinnslu á Stokkman-svæðinu í Barentshafi. Lokað á samstarf við erlend fyrirtæki og ákveðið að flytja gasið í leiðslu til Evrópu í stað þess að setja það um borð í skip til Bandaríkjanna. Sérfróðir menn teldu þetta til marks um, að Rússar hikuðu ekki við að beita orkulindum sínum til að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi.

Björn flutti ræðuna á 52. ársfundi Atlantic Treaty Association (ATA), sem haldinn er í Aþenu. ATA eru samtök félaga á borð við Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg og eru á þriðja hundrað fulltrúa frá tæplega 50 löndum á fundinum í Aþenu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×