Innlent

Sex ára fangelsi fyrir sveðjuárás

Hæstiréttur staðfesti í dag sex ára fangelsisdóm yfir Tindi Jónssyni fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að mann vopnaður sveðju og höggvið í höfuð hans og líkama.

Atvikið átti sér stað í Garðabæ í október í fyrra en þá réðst Tindur ásamt tveimur félögum sínum á manninn og lagði Tindur ítrekað til hans með sveðju þannig að fórnarlambið hlaut meðal annars djúpa skurði á höfði, sprungur í höfuðkúpu og blæðingu á yfirborði heilans, auk áverka á hægri hendi. Tindur var jafnfram sakfelldur fyrir fjórar aðrar líkamsárásir, brot á vopnalögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni.

Með þessu rauf hann skilorð vegna tveggja líkamsárása ogb fleiri brota. Frá sex ára fangelsi dregst gæsluvarðhaldsvist Tinds frá öðrum október í fyrra en hann var einnig dæmdur til að greiða tveimur fórnarlömbum sínum 450 þúsund króna bætur en hann hafði áður greitt þriðja fórnarlambinu bætur í samræmi við dóm héraðsdóms.

Tveir félagar Tinds voru einnig ákærðir fyrir líkamsárásir og hlutu þeir fjögurra mánaða fangelsi hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×