Erlent

Óttast að tugmilljónir séu tapaðar

Óvissa ríkir um sölu á íslenskum landbúnaðarvörum í Bandaríkjunum eftir að verslanakeðjan Whole Foods, sem er sú stærsta í heiminum á sínu sviði, ákvað að hætta markaðssetningu á þeim vegna hvalveiða Íslendinga í atvinnuskyni. Tugmilljónir króna eru farnar í súginn segir forstjóri matvælafyrirtækisins Norðlenska.

Bandaríska verslanakeðjan Whole Foods Market er sú stærsta í heiminum á sviði heilsufæðis og lífrænnar ræktunar. Vegna ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný telja stjórnendur keðjunnar Ísland ekki lengur framsækið í umhverfismálum og því skuli markaðssetningu afurða héðan hætt.

Miklum fjármunum hefur verið varið til markaðssetningar á íslenskum landbúnaðarvörum erlendis og samningarnir við Whole Foods voru á sínum tíma sagðir sérstaklega mikilvægir. Því er ljóst að ákvörðunin er mikið áfall.

Norðlenska er stærsti íslensku útflytjandinn á matvælum til Whole Food Market verslunarkeðjunnar í Bandríkjunum. Andvirði sölu á lambakjöti vestur í ár er um 80 milljónir króna en það hefur kostað ærinn pening að opna gáttina vestra. Því eru menn slegnir yfir því að bandaríska verslunarkeðjan hafi nú ákveðið að hætta markaðssetningu á íslenskum vörum vegna hvalveiða Íslendinga í atvinnuskyni. Sigmundur Ófeigsson, forstjóri Norðlenska, segist samt hafa varað við þessu á sínum tíma og nú verði stjórnvöld að vega og meta hagsmunina af því að halda áfram hvalveiðum.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir málið grafalvarlegt og telur ekki hægt að útiloka að fyrirtækið muni á endanum úthýsa íslensku vörunum með öllu. Í ljósi þessa segir hann því mikilvægt að ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar liggi fyrir sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×