Erlent

Skilyrði fyrir þátttöku

Bandaríkjaforseti og forsætiráðherra Bretlands segja að ekki verið rætt við Írana og Sýrlendinga um mögulegar lausnir á ástandinu í Írak líkt og ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta leggur til. Formaður nefndarinnar segir um heildstæða tillögu að ræða og ekki hægt að velja eitt og hafna öðru.

Skýrsla nefndarinnar, sem birt var í fyrradag, er í 78 liðum og hvetja skýrsluhöfundar Bush Bandaríkjaforseta til að fara eftir öllum atriðuð enda um heildstæða tillögu að ræða. James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og formaður nefndarinnar, segir ekki hægt að velja það úr sem teljist þóknanlegt og hafna öðrum. Lagt er til að bandarískt herlið verði að stórum hluta kallað heim í áföngum fram til 2008 og að rætt verði beint við Írana og Sýrlendinga um lausn mála í Írak.

George Bush Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi eftir fund sinn með Tony Blair forsætisráðherra Bretlands í Washington í gær að ráðamenn í Damascus og Teheran yrðu nú að velja. Þeir yrðu að viðurkenna lýðræðislega kjörna ríkisstjórn í Írak og láta af stuðningi við hryðjuverkamenn til að þeim yrði hleypt að samningaborðinu. Auk þess yrðu Íranar að leggja kjarnorkuáætlun sína möglunarlaust á hilluna. Á fundinum viðurkenndi Bush Bandaríkjaforseti að ástandið í Írak væri afar slæmt og þess yrði ekki langt að bíða að ný stefnumörkun bandarískra stjórnvalda í málefnu Íraks yrði kynnt ítarlega.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði í sjónvarpsviðtali í gær að lausn mála í Írak yrði að finna í samvinnu við Írana og Sýrlendinga. Flóttamenn streymdu frá Írak til Írans og því hefðu stjórnvöld í Teheran beinan hag af því að bæta ástandið. Kofi Annan, fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, tekur undir með Clinton og segir mikilvægt að ríkjunum tveimur verði leyft að leggja lóð sín á vogarskálarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×