Heildarkostnaður við nýja tillögu að jarðgöngum vegna Sundabrautar er um 16 milljarðar króna sem er fjórum milljörðum króna meira en kostaður við svokallaða innri leið eða eyjalausn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um jarðgangalausn fyrir Sundabraut sem kynnt var á samráðsfundi með íbúasamtökum Grafarvogs og Laugardals í dag.
Skýrslan er unnin á vegum Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og í henni er meðal annars farið yfir tæknileg atriði við gerð ganganna, kostnaðarmat og áhrif á umferð og það borðið saman við leið III, sem kölluð hefur verið „eyjalausn". Árlegur kostnaður við þjónusturekstur ganganna er áætlaður um 100 milljónir króna.
Fram kemur í tilkynningu frá borginni að í samráðsferli um 1. áfanga Sundabrautar, sem nær yfir sundin, með þátttöku Reykjavíkurborgar, íbúasamtaka Grafarvogs og Laugardals, Faxaflóahafna og Vegagerðarinnar var lögð áhersla á að kanna nánar jarðgangagerð á þeim áfanga.Ný jarðgangaleið var valin til skoðunar sem er lík legu þeirri sem var til skoðunar á árunum 1998-1999, en gangamunni að austanverðu er nú nær Geldinganesi en áður var. Með því verður tenging við Geldinganes og Kjalarnes og framtíðar þjóðveg til norðurs beinni en minni áhersla lögð á tengingu við Grafarvogshverfið. Þær kannanir sem gerðar hafa verið á jarðfræði á leiða í ljós að á megninu af leiðinni er talið að jarðgöng liggi í bergi sem er hagstætt til jarðgangagerðar.
Arðsemi 1. áfanga Sundabrautar er í samræmi við eldri áætlanir en hún miðast við uppbyggingu Sundabrautar í einum áfanga. Með áfangaskiptingu og lækkun stofnkostnaðar í upphafi geta arðsemistölur hækkað. Hraði uppbyggingar í Geldinganesi vegur þungt í arðsemisreikningum. Arðsemi ganganna er um 10% en leiðar III um 13%.
Talið er að það taki um fjögur og hálft ár að leggja leið III en fimm og hálft að leggja jarðgöng og segir í tilkynninguni að hægt sé að stytta þann tíma eitthvað gangi allur undirbúningur snurðulaust.
Kostir jarðgangaleiðar fram yfir leið III.
• Minni umhverfisáhrif í heild nema hvað varðar heildarakstur eða akstur
innan ganga, engin umhverfisáhrif við ósa Elliðaáa, minni hljóðvistarvandamál.
• Betri landnýting, minna land undir umferðarmannvirki.
• Minni umferð á austurhluta Miklubrautar og á mið og norðurhluta
Sæbrautar sem gefur tækifæri til frekari uppbyggingar meðfram
Sæbrautinni á því svæði.
• Allar siglingaleiðir óheftar þar á meðal að starfsemi á Ártúnshöfða,
(Björgunar, Malbikunarstöðvar, Sementsafgreiðslu).
Kostir leiðar III fram yfir jarðgangaleið.
• Ódýrari í stofnkostnaði og rekstri, hærri arðsemi, minni heildarakstur í
gatnakerfinu.
• Léttir meiri umferð af Ártúnsbrekku, Höfðabakkagatnamótum og Gullinbrú.
• Betri tenging göngu- og reiðhjólaleiða.
• Ekið ofanjarðar.
• Minni óvissa um stofnkostnað.
• Mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir.
• Áfangaskiptingar auðveldari og auðveldara að aðlaga fjárfestingar
skipulagsákvörðunum og uppbyggingu hvers tíma.
Hér er ekki gerð tilraun til að meta þessa kosti og ókosti til fjár, enda torvelt í
mörgum tilfellum.
Báðar þær leiðir sem lagðar eru fram eru færar.
Skýrsluna í heild sinni má sjá hér.