Innlent

Bátar, flugvélar, bílar og trampolín af stað í óveðri

Smábátar sukku og binda þurfti einkaflugvélar niður á Reykjavíkurflugvelli vegna óveðursins í gær, en björgunarsveitir unnu linnulaust fram á nótt við að koma í veg fyrir tjón og slys á fólki.

Mikið álag var á slökkviliði og björgunarsveitum fram eftir nóttu vegna veðursins. Jónas Guðmundsson hjá svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu segir um 70 björgunarsveitarmenn í Reykjavík og nágrenni hafa unnið við ýmis verkefni fram á nótt, en framan af hafi þeir talið að kvöldið yrði rólegt. Það hafi hins vegar breyst um kvöldmatarleitið þegar útköll fóru að berast.

Helstu verkefnin voru fjúkandi lausamunir, þakkantar og plötur, en töluvert var um að slökkvilið þyrfti að dæla þyrfti vatni út úr íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, í sumum tilfellum þurfti afkastamiklar dælur slökkviliðsins til að koma vatninu út.

Björgunarsveitir unnu einnig við að dæla sjó úr bátum við Reykjavíkurhöfn og Bryggjuhverfi, en nokkrir smábátar sukku við bryggju og binda þurfti einkaflugfélar á Reykjavíkurflugvelli vegna veðursins.

Á Kjalarnesi varð veður með versta móti og hvassara en björgunarsveitarmenn höfðu lent í lengi. Þar fauk hálft þak af húsi, gámar og bílar fuku, og segir Jónas nokkra bíla hafa fokið út af á Kjalarnesi.

Þá fuku nokkrir bílar út af Suðurlandsvegi við Sandskeið og fljúgandi trampolín skemmdi tvo bíla í Grindavík.

Á Ísafirði valt bíll en farþegana þrjá sakaði ekki. Björgunarsveitir á Ísafirði voru kallaðar út til að leita að feðginum sem fóru í akandi frá Ísafirði, en skiluðu sér ekki til Patreksfjarðar. Þau fundust stuttu síðar við Hrafnseyrarheiði þar sem þau sátu föst í bílnum og höfðu ekki komist yfir heiðina vegna veðursins.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×