Erlent

Deilt um helförina

Tvær ráðstefnur um helför gyðinga hófust í Íran og Þýskalandi í dag. Í Teheran er spurt hvort helförin hafi í raun átt sér stað en í Berlín er fullyrt að þeir sem neiti því geri það einvörðungu í pólitískum tilgangi. Gögn Þjóðverja sjálfra um ódæðin séu næg sönnun.

Það var Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti, sem átti hugmyndina að ráðstefnunni í Teheran. Hann hefur sagt Helförina goðsögn eða að minnsta kosti orðum aukna. Að sögn ráðstefnuhaldara koma sextíu og sjö fræði menn til hennar frá þrjátíu þjóðlöndum. Þar á meðal séu fjölmargir Gyðingar. Frjáls umræða sé leyfð og engar staðreyndir gefnar.

Robert Faurisson, franskur prófessor, sagði á ráðstefnunni í dag að leggja þyrfti fram sannanir og vitnisburði, annars væri helförin lítið annað en trú.

En á sama tíma er efnt til annarrar ráðstefnu Helförina í Berlín. Þar ræða fræðimenn rannsóknir sínar á gögnum um hana. Meðal þeirra er Raul Hilberg sem fæddist í Austurríki árið 1926 og slapp til Bandaríkjanna þegar Nasistar náðum völdum þar. Þegar hann kom til Þýskalands sem bandarískur hermaður árið 1945 fann hann einkabókasafn Adolfs Hitlers í Munchen.

Hilberg segir skjöl sýna fjölda útrýmingarbúða og vitna til tölfræði frá stormsveitum Hitlers. Helförin sé því ekki hugarburður. Sönnunargögnin komi frá Þjóðverjum sjálfum og því nái það engri átt að neita því að hún hafi átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×