Erlent

Fé leitar þangað sem fjölmiðlar eru

Janfvirði 1200 milljarða íslenskra króna var veitt til hjálparstarfs víða um heim í fyrra, samkvæmt nýrri hamfaraskýrslu Alþjóða Rauða krossins. Fénu er misskipt, að mati skýrsluhöfunda. Sem dæmi hafi ekki nægilega miklu fé verið veitt til hjálparstarfs í Malaví og segir íslenskur sendifulltrúi matvælaverkefnis Rauða krossins þar að fé leiti þangað sem fjölmiðlar séu.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Hamfaraskýrslan kemur út og henni ætlað að sýna á gagnrýninn hátt hvernig tekist hefur að veita neyðaraðstoð þar sem hennar er þörf.

Að þessu sinni er athyglinni beint að neyð á svæðum í heiminum sem njóta lítillar eða engrar athygli ráðamanna, fjölmiðla eða jafnvel hjálparsamtaka. Fram kemur að alþjóðasamfélagið hafi í fyrra veitt samanlagt jafnvirði um tólf hundruð milljarða íslenskra króna til neyðaraðstoðar.

Bent er á að fórnarlömb flóðbylgjunnar á Indlandshafi hafi fengið að meðaltali 85 þúsund krónur á hvern einstakling í formi aðstoðar þegar þörfin hafi verið um 18 þúsund. Framlög vegna átaka og hungursneiðar í Súdan hafi verið 30 þúsund á mann, 11 þúsundum minna en þurfti. Framlög vegna jarðskjálftans í Suður-Asíu hafi verið tvöfalt meiri en þurfti en framlög vegna átaka í Austur-Kongó aðeins þriðjugur af því sem þurfi.

Framlagið á mann í Malaví í fyrra var átján hundruð krónur. Birna Halldórsdóttir, sendifulltrúi, hefur starfað við matvælaverkefni Rauða krossins í Malaví síðan í febrúar í ár. Hún segir það sorglega staðreynd að fé til hjálparstarfs leiti þangað sem umfjöllunin sé mest.

"Þar sem fjölmiðlafókusinn er, þar koma peningarnir. Ef ef land er ekki í umfjöllun þá gleymist það," segir Birna.

Í skýrslunni er einnig fjallað um það að konur verði oft útundan þegar brugðist sé við neyðarástandi. Í skýrslunni er fjallað um að konur vinni oft betur úr áföllum eftir hamfarir. Þær eigi oft auðveldara með að veita sálrænan stuðning og hafi fleiri tækifæri til að afla tekna á meðan neyðarástand ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×