Viðskipti erlent

Toyota stærsti bílaframleiðandi heims?

Toyota Corolla.
Toyota Corolla.

Allt virðist stefna í að japanski bílaframleiðandinn Toyota taki fram úr bandaríska bílaframleiðandanum General Motors sem stærsta fyrirtækið á þessu sviði á næsta ári. Toyota ætlar að gefa í á nýju ári og auka framleiðslu á nýjum bílum um 4 prósent sem jafngildir því að fyrirtækið búi til 9,42 milljónir bíla á árinu.

Til samanburðar áætlar General Motors að framleiða tæpar 9,2 milljónir bíla á næsta ári. Það er hins vegar þvert á það sem greiningaraðilar telja, en þeir búast við samdrætti frekar en aukningu. Ástæðan liggur í því að bílaframleiðandinn bandaríski hefur átt við taprekstur að stríða og ætlar að loka nokkrum verksmiðjum á næstunni auk þess sem 30.000 manns verður sagt upp.

Ólíkt General Motors ætlar Toyota, sem skaust fram úr Ford í bílaframleiðslu sem næst stærsti bílaframleiðandi heims fyrir þremur árum, að reisa sex nýjar framleiðslulínur um heim allan fyrir lok þessa áratugar og framleiða umhverfisvæna bíla í auknum mæli.

Bandaríska dagblaðið The New York Times býst við að Toyota geti farið fram úr General Motors snemma á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×