Viðskipti erlent

Ford og Toyota í samstarf?

Gengi hlutabréfa í japanska bílaframleiðandanum Toyota fór í methæðir í dag í kjölfar fregna þess efnis að stjórnarformaður fyrirtækisins og forstjóri bandaríska bílaframleiðandans Ford hefðu fundað í Tókýó í Japan í síðustu viku.

Ekkert hefur verið gefið uppi um efni viðræðnanna en fjölmiðlar ýja að því að fyrirtækin ætli hugsanlega í samstarf á sviði bílaframleiðslu.

Toyota hefur verið á hraðri siglingu síðustu misserin og stefnir allt í að fyrirtækið fari fram úr bandaríska bílaframleiðandanum General Motors sem umfangsmesti bílaframleiðandi í heimi snemma á næsta ári. Toyota fór fram úr Ford á þessu sviði fyrir þremur árum.

Gengið hækkaði um 1,9 prósent í dag og fór hæst í 7.970 jen eða 8.020 íslenskar krónur á hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×