Erlent

10 ára bann fyrir skáksvindl

Indverskur skákmaður hefur verið dæmdur í tíu ára keppnisbann fyrir að svindla á stórmótum í heimalandi sínu. Hann var kominn alla leið á landsmótið í skák, þegar upp um hann komst.

Fyrir einu og hálfu ári hafði enginn heyrt um Umakant Sharma, en þá byrjaði hann að vinna hvert skákmótið af öðru. Uppgangur hans var slíkur að indverska skáksambandið varð tortryggið og fór að fylgjast með honum.

Hann var svo loks gripinn þegar hann var að vinna á enn einu stórmótinu. Þá uppgötvuðu menn að hann hafði saumað Blátannar farsíma inn í húfuna sem hann dró alltaf niðurfyrir eyru. Hann var þannig í sambandi við félaga sína sem sátu við tölvu og sögðu honum hvaða leik hann ætti að leika næst.

Umakant var hent út af mótinu og sagt að láta ekki sjá sig næstu tíu árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×