Erlent

Steypuklumpar falla úr Eyrarsundsbrúnni

Sjófarendur hafa verið varaðir við því að steypuklumpar séu farnir að falla niður af Eyrarsundsbrúnni, milli Danmerkur og Svíþjóðar. Skipum og bátum er ráðlagt að sigla aðeins undir brúna á vissum stöðum.

Klumparnir eru svo stórir að þeir geta vel sökkt meðalstórum skemmtibátum.

Skemmdirnar fundust við hefðbundið eftirlit á brúnni, og verður hafist handa við viðgerðir strax eftir áramót. Orsök þessa er sögð vera sú að steypublokkir hafi verið lagðar of þétt saman, og losni við núning sem verður bæði vegna umferðar og vinda.

Aðeins er talið óhætt að sigla undir brúna á þeim stað sem brúin er hæst Svíþjóðarmegin, en þar er stál í stað steypu í brúargólfinu. Ekki er talin nein ástæða til þess að loka fyrir umferð yfir brúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×