Erlent

Hafna vopnahléi

Allt virðist á leiðinni í sama farið á Gaza, eftir að Ísraelsmenn höfnuðu í gær tilboði um vopnahlé frá forsætisráðherra Palestínu. Framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna krefst þess að Ísraelsmenn leyfi hjálparstarfsmönnum að vinna óhindrað á svæðinu.

Það virtist glytta í langþrátt hlé á árásum við Gaza í gær, eftir að Ísraelsher dró liðsafla sinn burt frá norðurhluta Gaza og forsætisráðherra Palestínu bað um vopnahlé. En Adam var ekki lengi í paradís. Olmert forsætisráðherra Ísraels hafnaði vopnahléinu, nema ísraelskum hermanni sem herskáir Palestínumenn rændu í lok júní yrði sleppt.

Í gærkvöldi hélt Ísraelsher áfram árásum úr lofti og í gærkvöldi féllu sjö, meðal annars sex ára gömul stúlka. Í morgun árásir svo áfram á báða bóga. Herskáir Palestínumenn gerðu árás á borgina Sderot í Suður Ísrael og í gasaborg mátti heyra sprenginingar í morgun og mikilvæg brú fór í sundur, þrátt fyrir að Sameinuðu Þjóðirnar hafi ítrekað lagt áherslu á að herjir beggja aðila á svæðinu geri ekki árásir á samgöngumannvirki, eða annað sem getur gert erfitt líf þegnanna enn erfiðara.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna sendi í gær frá sér yfirlýsingu, þar sem Ísraelsmenn eru hvattir til að leyfa hjálparstarfsmönnum að flytja mat og eldsneyti á svæðið, enda sé algjört ófremdarástand að skapast. Nokkrar undirstofnanir Sameinuðu Þjóðanna hafa líka sent frá sér yfirlýsingu, þar sem segir að heilbrigðisslys sé yfirvofandi á Gasa ef ekkert verði að gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×