Erlent

Öryggisráðið kallar ekki til vopnahlés í Líbanon

Slökkviliðsmenn reyna að slökkva eld í orkuveri í Jiyeh, úthverfi Beirút
Slökkviliðsmenn reyna að slökkva eld í orkuveri í Jiyeh, úthverfi Beirút MYND/AP

Ekki náðist samkomulag í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að kalla til vopnahlés milli Ísraela og Hezbollah, eins og forsætisráðherra Líbanons bað um í gær. Líbanskir diplómatar kenna Bandaríkjamönnum um að hafa stöðvað tillöguna í ráðinu.

Forsætisráðherra Líbanons kallaði í gær eftir vopnahléi í Líbanon sem framfylgt væri af Sameinuðu þjóðunum, en loftárásir Ísraela hafa nú banað yfir hundrað manns á fimm dögum, en langflestir þeirra voru óbreyttir borgarar. Talsmaður Líbana hjá Sameinuðu þjóðunum sagði þetta mjög slæm skilaboð, ekki bara til Líbana, heldur til allra Araba.

Ísraelar gera nú loftárásir á Beirút og sprengdu meðal annars raforkuver í morgun, auk þess sem líbönsk sjónvarpsstöð datt úr loftinu í morgun eftir að sprengja féll á höfuðstöðvar hennar.

Skammdrægar eldflaugar frá Líbanon sprengdu í morgun ísraelsku hafnarborgina Haifa og féllu þar að minnsta kosti níu manns. Hezbollah skæruliðasamtökin hafa lýst sprengingunni á hendur sér og sagt hana í hefndarskyni fyrir alla þá líbönsku borgara sem fallið hafa.

George Bush ver aðgerðir Ísraela á fundi helstu iðnríkja heims sem fram fer í Sankti Pétursborg þessa dagana og segir þá vera í fullum rétti að verja sig gegn hryðjuverkaárásum. Jaques Chirac, forseti Frakklands, er hins vegar á öndverðum meiði og dregur taum Líbanons, líkt og Pútín forseti Rússlands. Ekki er því talið víst að leiðtogarnir nái að komast að samkomulagi um hvað gera beri í ástandinu sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×