Erlent

Hátt í sextíu manns hafa látist í flóðum í Asíu

Vatnselgur á götum borgarinnar Xiamen
Vatnselgur á götum borgarinnar Xiamen MYND/AP

Náttúruhamfarir víða um heim hafa tekið sinn toll í Asíu síðustu daga. Um sextíu manns hafa látist í flóðum í suðausturhluta Kína og í Suður-Kóreu.

Að minnsta kosti 42 hafa látist af völdum hitabeltisstormsins Bilis sem geisar í suðausturhluta Kína. Flestir létust í héraðinu Hunan, nokkuð inni í landi, og þar eru auk þess um 40 þúsund manns innlyksa vegna flóða. Áður en stormurinn skall á voru um 250 þúsund sjómenn varaðir við svæðinu og öllu flugi aflýst. Í júní létust 349 manns vegna flóða, skriðufalla og annarra hamfara tengdum veðri.

Miklar rigningar í austurhluta Suður-Kóreu hafa valdið flóðum og aurskriðum. Yfirvöld segja að að minnsta kosti 10 manns hafi látist í hamförunum og 17 er saknað. Úrkoman hefur verið mest í fjallahéraðinu Gangwon og er margra saknað eftir flóð í borgum þar. Um tvö þúsund manns hafa flúið heimili sín vegna flóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×