Erlent

Norður-Kóreumenn ætla ekki að hætta tilraunum sínum

MYND/AP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti samhljóða í nótt að setja takmarkað viðskiptabann á Norður-Kóreu vegna tilraunaskota þeirra á langdrægum eldflaugum. Norður-Kóreumenn svöruðu umsvifalaust að ekki kæmi til greina að falla frá frekari eldflaugaprófunum.

Aðeins 45 mínútum eftir að úrskurður Öryggisráðsins lá fyrir var gefin út opinber yfirlýsing frá norðurkóreiskum stjórnvöldum þar sem þvertekið er fyrir að fallið verði frá frekari prófunum eins og öryggisráðið krefst. Sendiherra Norður-Kóreu gagnvart Sameinuðu þjóðunum sagði það minna á vinnubrögð mafíósa hvernig rætt væri um eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna í öryggisráðinu. Ennfremur hafa stjórnvöld í Norður-Kóreu sagt að þeir muni áfram ótrauðir byggja upp vopnabúr sitt.

Viðskiptabannið sem samþykkt var í gær á að hindra öll viðskipti með þau efni og hluti sem notuð eru til að smíða eldflaugar. Á síðustu stundu voru tekin út ákvæði um að beita mætti vopnavaldi til að tryggja að banninu yrði fylgt, þar sem Kínverjar og Rússar höfðu hótað að beita neitunarvaldi gegn svo harðorðri tillögu.

Japanar kynntu uppkast að tillögunni sem samþykkt var í gær aðeins örfáum dögum eftir að Norður-Kóreumenn skutu upp sjö langdrægum eldflaugum þann fjórða og fimmta júlí síðastliðinn. Eldflaugarnar eru taldar nógu kraftmiklar til að geta náð yfir til Alaska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×