Fjölmenn mótmæli í Indónesíu gegn árásum Ísraela

Þúsundir manna komu saman á götum Jakarta, höfuðborgar Indónesíu í dag til að mótmæla árásum Ísraela á Líbanon og palestínsku sjálfstjórnarsvæðin. Margir báru spjöld sem sögðu Ísrael stunda hryðjuverk en aðrir báru palestínska fána. Ísraelski fáninn var fótum troðinn til að sýna fyrirlitningu mótmælendanna á ríkinu. Mótmælin eru þau stærstu í Indónesíu síðan árásir Ísraela á Líbanon hófust á miðvikudaginn. Indónesía hefur lengi stutt Palestínu að málum og neitar að viðurkenna Ísraelsríki.