Innlent

70 ár á þingi samanlagt

Sigríður Anna Þórðardóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi umhverfisráðherra, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Sigríður Anna er fjórða reynslumikla þingkonan sem dregur sig í hlé fyrir þessar kosningar en þær hafa samtals setið á þingi í sjötíu ár.

Það fjölgar í hópi þingkvennanna sem ekki hyggja á frekari þingsetu. Sigríður Anna tilkynnti á aðalfundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í Valhöll í gær að hún sæktist ekki eftir endurkjöri. Sigríður Anna hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 1991. Samþykkt var á sama kjördæmisráðsfundi að efna til prófkjörs þann 11. nóvember, til að velja á framboðslista flokksins í kjördæminu.

Margrét Frímannsdóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi tilkynnti á dögunum að hún ætlaði ekki að halda áfram og sama gildir um Rannveigu Guðmundsdóttur, þingkonu flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því einnig yfir á dögunum að hún myndi ekki bjóða sig fram í væntanlegu prófkjöri. Samtals munu þessar 4 konur hafa setið á Alþingi í 70 ár þegar kjörtímabilinu lýkur í vor.

Allar þingkonurnar sem hætta hafa sagt að ákvörðunin sé persónuleg. Enn á eftir að koma í ljós hvort konur koma í kvenna stað eða hvort þetta leiðir til þessað konum fækki á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×