Erlent

Fólksflótti frá Líbanon

Íbúar Líbanons eru tæplega fjórar milljónir en í landinu býr jafnframt nokkur fjöldi útlendinga víðs vegar að úr heiminum sem nú vill komast burt. Þorri þeirra kemur frá nágrannaríkjunum og kemst því heim af eigin rammleik en tugþúsundir þegna fjarlægari landa hafa verið strandaglópar síðustu daga.

Nú má segja að allar leiðir liggi frá Beirút. Í fyrsta lagi fara margir frá borginni til Damaskus í Sýrlandi og þaðan áleiðis til heimalanda sinna. Í öðru lagi hefur útlendingum verið ekið til Amman í Jórdaníu þaðan sem þeir halda til síns heima. Í þriðja lagi hafa svo skip full af erlendum ríkisborgurum siglt frá Beirút til Larnaca á Kýpur.

Miklum vandkvæðum er hins vegar bundið að flytja svo stóran hóp fólks á skömmum tíma frá landi þar sem flugvellir hafa eyðilagst og höfnum hefur flestum verið lokað. Ísraelar hafa hins vegar heimilað siglingar nokkurra skipa með flóttamenn frá Líbanon. Þannig kom ferja með 1.200 Frakka til hafnar í Larnaca á Kýpur í morgun, þreytta en ákaflega fegna. Stór hópur Rúmena kom til Búkarest í nótt og augljóst að sá hópur átti erfiða tíma að baki.

Bandarísk og bresk stjórnvöld búa sig undir að flytja sitt fólk með herskipum til Kýpur, þúsundir manna, en síðustu daga hafa Bandaríkjamenn myndað þyrluloftbrú frá Beirút til Kýpur. Í fyrramálið verða 1.500 Svíar sóttir með ferju og í kvöld er svo ráðgert að önnur flugvél Atlanta-flugfélagsins lendi í Danmörku en danska utanríkisráðuneytið leigði vélina til þess arna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×