Þekkirðu ekki einhvern - úti á landi? 18. júlí 2006 00:01 Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor töluðu frambjóðendur talsvert um aðbúnað aldraðra og lofuðu ýmsu fögru til úrbóta í þeim efnum. Sá málflutningur var eiginlega hálfgert svindl. Eða kannski bara algjört svindl, vegna þess að sveitarstjórnarfólk ræður mest lítið um hvernig að þessum aldurshópi er búið, af því að fjárveitingavaldið til þessa málaflokks er ríkisins en ekki sveitarfélaga. Afskaplega óintressant eins og verkaskipting ríkis- og sveitarfélaga hljómar þá er þetta málefni sem skiptir miklu máli. Sumir eru þeirrar skoðunar að þjónusta við fólkið eigi að vera sem mest á hendi sveitarfélaganna vegna þess að nálægð þeirra sem stjórna og fólksins sé meiri í sveitarstjórnum en í landsstjórninni. Það getur vissulega verið nokkuð til í því en það er fleira sem skiptir máli í þessum efnum. Sveitarfélög landsins eru mjög misjafnlega sett fjárhagslega, eða á mannamáli: misjafnlega rík. Sum sveitarfélög eru alveg sæmilega rík en önnur blönk, ef ekki næstum því fátæk. Heilbrigðismálaráðherrann sagði réttilega í vikunni sem leið að það væri flókið mál að færa ábyrgð á málaflokknum á milli stjórnsýslustiga því gæta þyrfti að því að fjármunir fylgdu með. Eins og nú háttar er ábyrgð á þjónustu við aldraða í stórum dráttum þannig fyrir komið að félagsþjónusta er á hendi sveitarstjórna en heilbrigðisþjónusta er á hendi ríkisins. Áður en hægt er að veita gömlu, lasburða og veiku fólki þjónustu þarf að koma upp húsnæði til að veita hana í, það þarf sem sagt að byggja hjúkrunarheimili. Í einhverjum af þeim lögum sem fjalla um þessi efni stendur að ef ríki og sveitarfélög byggi hjúkrunarheimili saman þá skuli sveitarfélagið borga minnst 15% í stofnkostnaðinum. Sveitarfélag getur þannig að því er virðist reynt að leggja sitt af mörkum með því að borga stærri hluta stofnkostnaðar en lögboðið er, og ég held ég muni rétt að einhver hafi komið með tillögu um að Reykjavíkurborg borgaði 30% af byggingu nýs hjúkrunarheimilis í höfuðborginni. Ekki hefur þetta þó dugað til að dregið sé úr þeirri hneisu sem skortur á hjúkrunarplássi í höfuðborginni er. Það er nefnilega svo að okkur öllum getur sú stund runnið upp að fólk þarf að fá þjónustu sem einungis er hægt að veita á hjúkrunarheimilum. Þjónustu sem ekki verður veitt í heimahúsum jafnvel þó allir séu af vilja gerðir til að svo sé. Um daginn hitti ég gamla samstarfskonu og spurði frétta svona eins og fólk gerir á förnum vegi. Hún sagði allt gott af sjálfri sér, þó væri hún svolítið þreytt sagði hún. Því þetta er búið að vera svolítið strembið, bætti hún við, hún mamma er svo léleg síðan hún fékk flensuna í vetur. Mamma sem fékk flensuna í vetur er 95 ára. Dótturinni er boðin heimahjúkrun fyrir móðurina. Einhver getur hjálpað til við að sortéra töflurnar fyrir gömlu konuna og hjálpað henni að baða sig. Vandamálið, sem ekki er vandamál heldur úrlausnarefni, er hins vegar ekki töflurnar eða baðið heldur næturnar og dagarnir sem gamla konan þarf nánast gæslu og hjálp við allt sem hún gerir. Þekkirðu ekki einhvern úti á landi, var spurt þegar dóttirin útskýrði að móðir hennar þyrfti þjónustu allan sólarhringinn. Auðveldara mun vera að fá hjúkrunarpláss á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Nú er sem sagt ekki lengur nóg að þekkja einhvern, heldur þarf hann að vera úti á landi! Úrlausn gamallar konu sem er fædd og uppalin í Reykjavík er að senda hana úr bænum, þaðan sem hún hefur búið alla sína tíð, eitthvert út á land þar sem hún á kannski einhvern ættingja sem gæti litið til hennar við og við og einkadóttirin gæti skotist um helgar að spjalla við hana. Nóg er komið af umræðum um skort á hjúkrunarplássi og vangaveltum um hvort málaflokkurinn sé betur komin í höndum ríkis eða sveitarfélaga. Aðgerða og athafna er þörf, eins og þeir gætu sagt sem hafa sagt mávunum stríð á hendur. Þetta er ekki vandamál, heldur mál sem þarfnast úrlausnar, það er eðlilegur gangur lífsins að þegar fólk lifir svo lengi sem raun ber vitni breytast þarfirnar. Þær þarfir þarf að uppfylla rétt eins og þeirra sem yngir eru. Auk þess legg ég til að eftirlaunaósóminn verði afnuminn með lögum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor töluðu frambjóðendur talsvert um aðbúnað aldraðra og lofuðu ýmsu fögru til úrbóta í þeim efnum. Sá málflutningur var eiginlega hálfgert svindl. Eða kannski bara algjört svindl, vegna þess að sveitarstjórnarfólk ræður mest lítið um hvernig að þessum aldurshópi er búið, af því að fjárveitingavaldið til þessa málaflokks er ríkisins en ekki sveitarfélaga. Afskaplega óintressant eins og verkaskipting ríkis- og sveitarfélaga hljómar þá er þetta málefni sem skiptir miklu máli. Sumir eru þeirrar skoðunar að þjónusta við fólkið eigi að vera sem mest á hendi sveitarfélaganna vegna þess að nálægð þeirra sem stjórna og fólksins sé meiri í sveitarstjórnum en í landsstjórninni. Það getur vissulega verið nokkuð til í því en það er fleira sem skiptir máli í þessum efnum. Sveitarfélög landsins eru mjög misjafnlega sett fjárhagslega, eða á mannamáli: misjafnlega rík. Sum sveitarfélög eru alveg sæmilega rík en önnur blönk, ef ekki næstum því fátæk. Heilbrigðismálaráðherrann sagði réttilega í vikunni sem leið að það væri flókið mál að færa ábyrgð á málaflokknum á milli stjórnsýslustiga því gæta þyrfti að því að fjármunir fylgdu með. Eins og nú háttar er ábyrgð á þjónustu við aldraða í stórum dráttum þannig fyrir komið að félagsþjónusta er á hendi sveitarstjórna en heilbrigðisþjónusta er á hendi ríkisins. Áður en hægt er að veita gömlu, lasburða og veiku fólki þjónustu þarf að koma upp húsnæði til að veita hana í, það þarf sem sagt að byggja hjúkrunarheimili. Í einhverjum af þeim lögum sem fjalla um þessi efni stendur að ef ríki og sveitarfélög byggi hjúkrunarheimili saman þá skuli sveitarfélagið borga minnst 15% í stofnkostnaðinum. Sveitarfélag getur þannig að því er virðist reynt að leggja sitt af mörkum með því að borga stærri hluta stofnkostnaðar en lögboðið er, og ég held ég muni rétt að einhver hafi komið með tillögu um að Reykjavíkurborg borgaði 30% af byggingu nýs hjúkrunarheimilis í höfuðborginni. Ekki hefur þetta þó dugað til að dregið sé úr þeirri hneisu sem skortur á hjúkrunarplássi í höfuðborginni er. Það er nefnilega svo að okkur öllum getur sú stund runnið upp að fólk þarf að fá þjónustu sem einungis er hægt að veita á hjúkrunarheimilum. Þjónustu sem ekki verður veitt í heimahúsum jafnvel þó allir séu af vilja gerðir til að svo sé. Um daginn hitti ég gamla samstarfskonu og spurði frétta svona eins og fólk gerir á förnum vegi. Hún sagði allt gott af sjálfri sér, þó væri hún svolítið þreytt sagði hún. Því þetta er búið að vera svolítið strembið, bætti hún við, hún mamma er svo léleg síðan hún fékk flensuna í vetur. Mamma sem fékk flensuna í vetur er 95 ára. Dótturinni er boðin heimahjúkrun fyrir móðurina. Einhver getur hjálpað til við að sortéra töflurnar fyrir gömlu konuna og hjálpað henni að baða sig. Vandamálið, sem ekki er vandamál heldur úrlausnarefni, er hins vegar ekki töflurnar eða baðið heldur næturnar og dagarnir sem gamla konan þarf nánast gæslu og hjálp við allt sem hún gerir. Þekkirðu ekki einhvern úti á landi, var spurt þegar dóttirin útskýrði að móðir hennar þyrfti þjónustu allan sólarhringinn. Auðveldara mun vera að fá hjúkrunarpláss á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Nú er sem sagt ekki lengur nóg að þekkja einhvern, heldur þarf hann að vera úti á landi! Úrlausn gamallar konu sem er fædd og uppalin í Reykjavík er að senda hana úr bænum, þaðan sem hún hefur búið alla sína tíð, eitthvert út á land þar sem hún á kannski einhvern ættingja sem gæti litið til hennar við og við og einkadóttirin gæti skotist um helgar að spjalla við hana. Nóg er komið af umræðum um skort á hjúkrunarplássi og vangaveltum um hvort málaflokkurinn sé betur komin í höndum ríkis eða sveitarfélaga. Aðgerða og athafna er þörf, eins og þeir gætu sagt sem hafa sagt mávunum stríð á hendur. Þetta er ekki vandamál, heldur mál sem þarfnast úrlausnar, það er eðlilegur gangur lífsins að þegar fólk lifir svo lengi sem raun ber vitni breytast þarfirnar. Þær þarfir þarf að uppfylla rétt eins og þeirra sem yngir eru. Auk þess legg ég til að eftirlaunaósóminn verði afnuminn með lögum.