Innlent

Spáir stormi með ofankomu víða um land á morgun

MYND/Elma Guðmundsdóttir

„Það má búast við stormi víða um land á morgun með snjókomu og skafrenningi á norðanverðu landinu og á Vestfjörðum en úrkomulitlu veðri syðra," segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á veðurstofu NFS um veðurhorfurnar næsta sólarhring.

„Við eru að fá yfir okkur stífan norðan streng með kólnandi veðri. Það verður mjög hvasst á Vestfjörðum, Vesturlandi og norðvestan til framan af degi á morgun en síðan þegar líður á síðdegið hvessir suðvestan til og einnig á Austur- og Suðausturlandi," segir Sigurður.

Hann bætir við að töluverð úrkoma sé í þessu á norðanaustanverðu landinu og því þurfi lítið til, til að færð spillist á þjóðvegum norðan heiða og einnig á Vestfjörðum á morgun. „Norðaustan átt af þessari stærðargráðu er aldrei góð á sunnanverðu Snæfellsnesi, undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og víðar og því rétt að fylgjast með upplýsingum frá Vegagerðinni eftir því sem þær berast. Fram undan eru síðan kaldar norðlægar áttir með éljagangi nyrðra en smám saman rofar til í kuldanum hér sunnan heiða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×