Erlent

Breska lögreglan ákærð

Inngangur lestarstöðvarinnar Við einn inngang jarðlestastöðvarinnar hefur sérstakt svæði verið helgað minningu Brasilíumannsins.
Inngangur lestarstöðvarinnar Við einn inngang jarðlestastöðvarinnar hefur sérstakt svæði verið helgað minningu Brasilíumannsins. MYND/AP

Manoel Gomes Perreira, sendiherra Brasilíu í Bretlandi, hefur sagt breskum stjórnvöldum að hann sé undrandi á því að enginn breskur lögreglumaður verði ákærður vegna drápsins á Brasilíu­manninum Jean Charles de Menezes, sem lét lífið af völdum byssukúlna frá breskum lögreglumönnum á jarðlestastöðinni Stockwell í London hinn 22. júlí á síðasta ári.

Fréttastofa bresku sjónvarpsstöðvarinnar BBC skýrir einnig frá því að íbúar í Gonzaga, heimabæ de Menezes í Brasilíu, séu furðu lostnir og reiðir vegna ákvörðunar breska ákæruvaldsins, sem tilkynnt var um á mánudag.

Ákæruvaldið í Bretlandi taldi ekki ástæðu til þess að ákæra lögreglumennina tvo, sem skutu á Menezes, þar sem þeir stóðu báðir í þeirri trú að hann væri sjálfsmorðsárásarmaður með sprengjur innanklæða. Þeir töldu að hann myndi sprengja lestina og valda miklu manntjóni ef þeir kæmu ekki í veg fyrir það með því að skjóta hann.

Ákæruvaldið komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að lögreglan, sem stofnun, yrði ákærð fyrir brot á lögum um heilbrigði og öryggi á vinnustöðum vegna þess að henni tókst ekki að tryggja heilbrigði, öryggi og velferð de Menezes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×