Innlent

Meirihluti vill Sjálfstæðisflokk í stjórn

Meira en helmingur svarenda vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn eftir næstu kosningar samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Næstflestir, eða rúm 48 prósent, vilja að Samfylkingin eigi aðild að ríkisstjórn. 45 prósent segjast vilja meirihlutasamstarf við Vinstri græn.

Rúm 38 prósent segjast vilja að Framsóknarflokkurinn haldi áfram í ríkisstjórn og tæp 15 prósent segjast vilja að Frjálslyndi flokkurinn sitji í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Mikill munur er á afstöðu kynjanna til þess hvaða flokk fólk vill í ríkisstjórn. Meira en helmingur karla lítur til hægri og vill að Sjálfstæðisflokkur eigi aðild að næstu stjórn. Meira en helmingur kvenna lítur hins vegar til vinstri og vill að Samfylking eða Vinstri græn sitji í næstu ríkisstjórn.

Rúmlega 59 prósent karla vilja að Sjálfstæðisflokkur verði í stjórn, en tæplega 47 prósent kvenna. Þá vilja tæp 42 prósent karla að Framsóknarflokkur eigi aðild að ríkisstjórn, en rúm 34 prósent kvenna.

Rúmlega 58 prósent kvenna vilja hins vegar að Samfylking eigi aðild að næstu ríkisstjórn, en hlutfall karla er rúm 40 prósent. Þá vilja rúm 55 prósent kvenna að Vinstri græn eigi aðild að ríkisstjórn, en tæplega 37 prósent karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×