Bylgja sprengju- og skotárása gekk yfir Írak þvert og endilangt í gær. Að minnsta kosti 51 maður lét lífið í árásunum, þrátt fyrir að gripið hafi verið til umfangsmikilla aðgerða til að auka öryggi borgaranna í höfuðborginni Bagdad og áskoranir frá forsætisráðherranum Nouri al-Maliki, sem er sjía-múslimi, um að landar hans úr ólíkum trúarhópum hætti gagnkvæmum árásum.
Al-Maliki hélt því enn fremur fram að tekið væri að draga úr átökum trúarhópa og að ríkisstjórn hans væri að ná árangri í að stöðva bæði bræðravíg sjía og súnnía og árásir uppreisnarmanna.
Það er ekki borgarastríð. Það verður aldrei borgarastríð í Írak, lýsti hann yfir í sjónvarpsviðtali.
En mannfallið hélt áfram. Minnst 51 lét lífið í skot- og sprengjuárásum vítt og breitt um landið, þar á meðal í Kirkuk í norðri og Basra í suðri, auk Bagdad og nágrennis.