Innlent

FL Group selur hlut sinn í Straumi

FL Group hefur samþykkt að selja 22,6 prósent hlut sinn í Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf. til bankans sjálfs og viðskiptavina hans. Kaupendur greiða 18 krónur fyrir hvern hlut og nemur verðið 42,1 milljarði króna.

Í tilkynningu frá FL Group segir að söluverðið greiðist með um 28,3 milljörðum króna í reiðufé, um 10,2 milljörðum króna með hlutum í finnska flugfélaginu Finnair og um 3,6 milljörðum króna með hlutum í skráðum íslenskum félögum.

Samningarnir eru gerðir með fyrirvara um fjármögnun kaupenda. Stefnt er að því að ljúka viðskiptunum 22. desember næstkomandi. Eftir viðskiptin mun FL Group eiga um 400 milljón hluti í Straumi-Burðarási eða um 4 prósent heildarhlutafjár.

FL Group eignaðist hlut sinn í Straumi-Burðarási síðla sumars.

Haft er eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, að ánægjulegt hafi verið að vinna með forsvarsmönnum Straums-Burðaráss undanfarna mánuði og óskar hann þeim velfarnaðar með félagið. „Salan á hlut FL Group í Straumi-Burðarási gefur FL Group aukin byr í seglin og eykur fjárfestingagetu okkar til muna. Í kjölfarið á kaupum okkar í Straumi-Burðarási í sumar jók FL Group eigið fé um ríflega 35 miljarða króna sem skipti sköpum fyrir fjárhagslegan styrk félagsins. Við horfum björtum augum til framtíðar," segir Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×