Erlent

Yfirgáfu deyjandi mann

Mark Inglis Hlaut heimsfrægð fyrir að verða fyrsti fótalausi maðurinn til að klífa Everest. Hann og fjörutíu aðrir gengu framhjá deyjandi manni.
Mark Inglis Hlaut heimsfrægð fyrir að verða fyrsti fótalausi maðurinn til að klífa Everest. Hann og fjörutíu aðrir gengu framhjá deyjandi manni. MYND/AP

Nýsjálendingurinn Mark Inglis varð í maí fyrsti maður heims til að ganga á tind Everest á tveimur gervifótum og hlaut hann heimsfrægð fyrir.

En nú hefur komið fram að hann, auk um fjörutíu annarra fjallafara, gekk framhjá deyjandi manni og skildi hann eftir þó augljóst hlyti að vera í hvað stefndi, enda var nærri 40 stiga frost á tindinum.

Hinn 34 ára gamli David Sharp sat kalinn í snjónum og tilkynnti þeim sem stoppuðu nafn sitt og með hverjum hann ferðaðist, og sagðist síðan vilja „bara sofa“. Ferðafélagar hans segja hann hafa gefist upp á ferðinni og haldið einn til baka á meðan hinir héldu áfram upp.

Hann var kalinn á höndum upp að olnbogum og á fótum upp að hnjám og nef hans og kinnar voru svört af kali þegar Inglis kom að honum, samkvæmt fréttavef danska blaðsins Politiken.

Inglis hefur verið sakaður um að hafa ekki brugðist við. Upphaflega sagðist hann hafa kallað eftir hjálp í gegnum talstöð, en sá sem hann á að hafa kallað til segir Inglis fara með ósannindi.

Ellefu manns fórust á Everest í vor, sem gerði það mannskæðasta vorið frá árinu 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×