Erlent

Hitamet slegið á Bretlandi

Í sólbaði	Þessi stúlka virtist ekki þjást mikið í hitanum á Trafalgartorgi í London í gær, að minnsta kosti ekki á meðan hún gat legið kyrr við gosbrunninn.
Í sólbaði Þessi stúlka virtist ekki þjást mikið í hitanum á Trafalgartorgi í London í gær, að minnsta kosti ekki á meðan hún gat legið kyrr við gosbrunninn. MYND/Nordicphotos/afp

Hitinn í Bretlandi í gær var svo mikill að ljónunum í dýragarði í héraðinu Essex voru gefnir ísmolar með blóðbragði. Dómarar fengu leyfi til að taka niður hárkollurnar í dómsölum landsins, vaktir konunglegra varða við Buckingham-höll voru styttar í klukkustund og yfirborð vega bráðnaði víðs vegar um landið.

Hitinn fór í nær 37 gráður og hafa Bretar ekki séð slíkan hita í júlí í manna minnum. Hitamet júlímánaðar sem staðið hefur síðan árið 1911 var slegið, en þá mældist hitinn 36 gráður.

Neðanjarðarlestin í London er ekki loftkæld og að sögn blaðsins Evening Standard fór hitinn í 47 gráður, við litla hrifningu farþega.

Afar heitt var í mörgum Evrópulöndum og hvöttu yfirvöld fólk til að drekka mikið vatn, halda sig í skugga og huga sérstaklega að öldruðum, veikum og börnum.

Að sögn yfirvalda í Frakklandi hafa níu manns látist vegna hitabylgjunnar. Árið 2003 létust meira en 15.000 manns í Frakklandi vegna hitabylgjunnar sem reið þá yfir Evrópu. Tveir hafa látist á Spáni og tveir í Hollandi, þar sem fjögurra daga göngu­hátíð var aflýst vegna veðurs.

Meðalhitinn í Englandi í júlí er 21,2 gráður, en heitasti dagur sem mælst hefur í Bretlandi var í ágúst árið 2003, þegar hitinn fór upp í 38,5 gráður. Varar veðurstofa Bretlands við því að það met gæti fallið á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×