Erlent

Spenna eykst á Kóreuskaga

Mótmæli í Suður-Kóreu Þessi Suður-Kóreumaður kveikti í gær í fána Norður-Kóreu fyrir framan utanríkisráðuneytið í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu.
Mótmæli í Suður-Kóreu Þessi Suður-Kóreumaður kveikti í gær í fána Norður-Kóreu fyrir framan utanríkisráðuneytið í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. MYND/AP

Spennan milli Norður- og Suður-Kóreu vex með degi hverjum. Roh Moo-hyun, forseti Suður-Kóreu, fordæmdi í gær harðlega tilraunir Norður-Kóreumanna með flugskeyti og sagði þær geta leitt af sér vopnakapphlaup, sem gagnaðist engum.

Jafnframt varaði hann önnur ríki við því að bregðast of harkalega við framferði Norður-Kóreumanna og auka þar með enn á spennuna í þessum heimshluta. Hann nefndi engin ríki á nafn, en hefur áður gagnrýnt Japana fyrir að ætla hugsanlega að bregðast við tilraunum Norður-Kóreu með því að gera fyrirbyggjandi árás á skotstaði tilrauneldflauganna í Norður-Kóreu.

Fjölmiðlar í Japan héldu því fram í gær að japönsk stjórnvöld ætluðu um miðjan ágúst að hefja einhliða refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu, sem yrðu efnahagslegar refsiaðgerðir og fælust í því að inneignir Norður-Kóreu í japönskum bönkum yrðu frystar og flutningur fjármagns milli landanna bannaður.

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, sagði þó í gær að Japönum lægi ekkert á að taka ákvarðanir um refsiaðgerðir. Fyrst verði beðið eftir frekari viðbrögðum frá Norður-Kóreu.

Norður-Kóreumenn stöðvuðu í gær allar heimsóknir Suður-Kóreumanna til ættingja sinna í Norður-Kóreu, í það minnsta tímabundið. Þessar heimsóknir hófust fyrir nokkrum árum þegar samskipti ríkjanna bötnuðu, en þessi ákvörðun þykir greinilegt merki um það hve spennan milli þeirra er mikil núna.

Tilkynning um þetta barst í gær, í beinu framhaldi af því að Suður-Kóreumenn neituðu í síðustu viku að ræða mannúðar­aðstoð við Norður-Kóreu fyrr en einhver lausn fyndist á deilunni um flugskeytatilraunir Norður-Kóreumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×