Erlent

Ísraelar útiloka ekki stórtæka innrás í Líbanon

Ísraelar útiloka ekki stórtæka innrás í Líbanon á næstu dögum. Ísraelsher varpaði í dag meira en tuttugu tonnum af sprengjum á Líbanon og talsmenn hersins segjast á góðri leið með að knésetja Hisbollah-samtökin. Nær allir sem hafa fallið eru blásaklausir og sérfræðingar Sameinuðu Þjóðanna segja árásirnar mögulega flokkast undir stríðsglæpi.

Það er ekki mikið eftir af Dahya hverfinu í Beirút, þar sem liðsmenn Hisbollah halda sig. En því miður er þetta ekki bara hverfi Hisbollah, þarna búa alla jafna sex hundruð þúsund manns, flestir venjulegir borgarar, sem tengjast samtökunum herskáu ekki neitt. Þetta fólk hefur þurft að flýja heimili sín, enda rignir sprengjunum beinlínis niður dag eftir dag. Aðalátökin eru þó eins og áður ekki í Beirút, heldur við landamærin að Ísrael. Þar eru líka óbreyttir borgarar og sumir eru í sárum.

Meira en þrjú hundruð hafa fallið síðan loftárásirnar hófust fyrir níu dögum, flestallir blásaklausir. Nú eru það þó ekki bara loftárásir, því að átökin á jörðu niðri harðna enn frekar. Bæði Ísraelskir hermenn og Hisbollah liðar hafa fallið í hörðum skotbardögum við landamærin í dag.

Talsmenn ísraelska hersins útiloka ekki að enn frekara púður verði lagt í árásirnar á næstu dögum og stórtæk innrás á jörðu niðri er enn inni í myndinni. En þá verða þeir líka að flýta sér, því að þrýstingurinn frá alþjóðasamfélaginu eykst dag frá degi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×