Innlent

Harður árekstur

Ökumaður lítils sendiferðabíls af Volkwagen-gerð var fluttur nokkuð slasaður til Reykjavíkur eftir harðan árekstur við vöruflutningabíl á Suðurlandsvegi, til móts við afleggjarann að Ásmundarstöðum á áttunda tímanum í kvöld. Beita þurfti klippum til að ná ökumanni sendiferðabílsins út en ökumann vöruflutningabílsins sakaði ekki.

Vöruflutningabíllinn var hlaðinn grjóti og beið ökumaður færis á að aka honum inn á afleggjarann að Ásmundastöðum þegar sendiferðabíllinn skall aftan á honum. Ökumaður sendiferðabílsins var einn á ferð. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er ekki vitað hversu alvarlega maðurinn var slasaður en hann mun hafa verið með meðvitund á slysstað. Bíll hans er gjörónýtur.

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á slysadeild virðist við fyrstu skoðun að maðurinn hafi ekki hlotið lífshættulega áverka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×