Innlent

Bjóða fjórar milljónir á ári

Hrönn 
Pétursdóttr
Hrönn Pétursdóttr

Alcoa auglýsti um helgina eftir hundrað starfsmönnum til starfa við álver fyrirtækisins í Reyðarfirði.

Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Alcoa Fjarðaál, sagði í samtali við Fréttablaðið að sóst væri eftir fólki til að fylla í stöður framleiðslustarfsmanna annars vegar, sem munu stýra hugbúnaði og vinnuvélum við framleiðslu álsins, og raf- og vélvirkja hins vegar, sem sinna viðhaldi. Um langtímastörf er að ræða.

Hrönn segir að raf- og vélvirkjar séu krafðir um tilskylda menntun, en almenn menntun dugi í framleiðslustörf. "Starfsmenn munu hljóta þriggja til fimm ára menntun innanhúss," útskýrir hún. "Tölvukerfi, vinnuvélar og tæki eru til að mynda mjög sérhæfð og innanhúsmenntunin því nauðsynleg."

Alcoa býður starfsmönnum um fjórar milljónir í árslaun, sem samsvarar um 340 þúsund krónum á mánuði. Að sögn Hrannar á þessi tala þó aðeins við um þá sem vinna eftir vaktakerfi og lokið hafa viðeigandi starfsþjálfun. "Þegar fólk hefur lokið 18-36 mánaða grunnþjálfun, er það komið upp í þessi laun," segir hún.

Störf af þessu tagi voru fyrst auglýst í mars á þessu ári og var aðsóknin þá góð, að sögn Hrannar. Hún ráðgerir að hún verði ekki minni nú og segist vona til að fjölga konum, sem eru nú um það bil 27 prósent starfsmanna, enda sé ekki um líkamlega erfið störf að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×