Innlent

Himinninn stærsta tjaldið

Stjörnubjart Slökkt verður á öllum götu­­ljósum í borginni til að fólk geti notið stjörnudýrðarinnar.
Stjörnubjart Slökkt verður á öllum götu­­ljósum í borginni til að fólk geti notið stjörnudýrðarinnar.

Slökkt verður á öllum götuljósum í Reykjavík milli klukkan tíu og hálf ellefu hinn 28. september og borgarbúum þannig gert kleift að njóta stjörnudýrðar himinhvolfsins. Myrkvunin verður sú fyrsta í heiminum sinnar tegundar, en ekki er vitað til þess að heil borg hafi verið myrkvuð áður af ásetningi.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík stendur fyrir viðburðinum í samstarfi við Reykjavíkurborg. „Himinninn er stærsta sýningartjald í heimi,“ segir Atli Bollason, verkefnastjóri hjá hátíðinni. „Okkur fannst mjög snjallt að opna hátíðina með þessum hætti og sýna fólki að maður þarf ekki að leita langt til að sjá fallegar myndir. Ljósmengun í borginni er gríðarleg og það er örsjaldan sem sést til stjarna, miðað við það sem maður þekkir utan af landi.“ Atli hvetur fólk til að slökkva ljós á heimilum sínum og vinnustöðum þennan hálftíma til að sýningin heppnist sem best.

Ef ekki viðrar vel hefur hátíðin leyfi til að fresta viðburðinum til 1. október. „Ef það viðrar ekki heldur þá, þá er myrkrið sjálft í raun svolítið eftirsóknarvert í svona mikið lýstri borg,“ segir Atli.

Stjörnufræðingur mun lýsa því sem fyrir augu ber í beinni útsendingu á Rás 2. Lögregla mun hafa sérstakan viðbúnað til að fyrirbyggja vandræði vegna myrkursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×