Innlent

Fara hringinn á einum tanki

Stefán Ásgrímsson fyllir tankinn Það er eins gott fyrir Stefán að aka sparlega því ef hann kemst hringveginn á einum tanki mun Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fá bifreiðina til afnota í heilt ár frá Heklu.
Stefán Ásgrímsson fyllir tankinn Það er eins gott fyrir Stefán að aka sparlega því ef hann kemst hringveginn á einum tanki mun Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fá bifreiðina til afnota í heilt ár frá Heklu. MYND/Stefán

Stefán Ásgrímsson, ritstjóri FÍB blaðsins, og Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, og dóttir hans Þuríður Arna lögðu af stað klukkan ellefu í gærmorgun frá Reykjavík í hringferð um landið en markmiðið er að komast ferðina á einum tanki. Takist það mun Hekla veita félaginu full afnot af bifreiðinni, sem er Skoda 1,9 dísil, í eitt ár.

„Við reiknum með því að koma aftur í bæinn um hádegisbilið á miðvikudag,“ sagði Stefán áður en hann lagði í hann. „Við munum gista fyrst á Akureyri en svo verður nokkuð þungur áfangi þar á eftir því þá munum við keyra til Kirkjubæjarklausturs og þaðan í bæinn.“

Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri Heklu, segir að dísilbifreiðar eyði um 20 til 30 prósentum minna en bensínbílar.

„Ef þeir væru á bensínbíl kæmust þeir hugsanlega til Hafnar í Hornafirði,“ segir hann. „Þetta verður tæpt hjá þeim en þeir eiga að komast allan hringinn á þessum bíl. Við munum taka á móti þeim með pompi og prakt á miðvikudag. Nú og ef illa fer þá erum við tilbúnir með brúsann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×