Innlent

Fóru til Florída í boði Alcoa

eskifjörður Alcoa segir styrkveitinguna einvörðungu þáttur í því að vera góður nágranni.
eskifjörður Alcoa segir styrkveitinguna einvörðungu þáttur í því að vera góður nágranni. MYND/GVA

Tveir lögreglumenn frá Eskifirði fóru í boði Alcoa Fjarðaáls á tveggja vikna námskeið í Florída í Bandaríkjunum árið 2004. Mennirnir þáðu styrk í eigin nafni frá Alcoa og öðrum fyrirtækjum og stofnunum á Austurlandi til að sækja námskeið í fíkniefnaleit. Þá styrkti dómsmála-

­ráðu­­neytið mennina til fararinnar.

Guðlaug Gísladóttir, starfsmaður í samfélagsdeild Alcoa Fjarðaáls, segir fyrirtækið styrkja fjöldann allan af verkefnum árlega í samfélaginu. „Við styrktum mennina um ferðakostnað sem við greiddum beint til þjónustuaðila,“ segir Guðlaug. „Þetta var bara venjuleg þátttaka okkar í uppbyggingu samfélagsins hérna fyrir austan.“

Samkvæmt Guðlaugu eru engin áform uppi um frekari styrkveitingar til lögreglumanna á Eskifirði. „Við úthlutum samkvæmt umsóknum sem samræmast okkar reglum. Við viljum leggja okkar af mörkum að vera góðir nágrannar.“

Lögreglumennirnir leituðu sjálfir eftir styrk til að sækja námskeiðið. Inger L. Jónsdóttir, sýslumaður á Eskifirði, segir umsóknina aldrei hafa komið inn á borð hjá embættinu. „Þetta var algjörlega á vitorði þeirra sjálfa, eina sem við gerðum var að útvega mönnunum frí svo að þeir gætu sótt námskeiðið,“ segir Inger. „Ég var ekkert að velta því fyrir mér hvaða aðilar voru að styrkja þá, enda fannst mér það okkur óviðkomandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×