Innlent

Segja lítinn áhuga á hvalkjöti innan lands sem utan

MYND/AP

Einungis 1,1 prósent Íslendinga neytir hvalkjöts einu sinni í viku eða oftar en 82,4 prósent fólks á aldrinum 16-24 ára leggur sér ekki hvalkjöt til munns. Þetta eru niðurstöður úr árlegri neyslukönnun Gallup sem gerð var í júní og júlí fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og Alþjóðadýraverndunarsjóðinni.

Í tilkynningu frá fyrrnefndu samtökunum segir að þetta sýni lítinn áhuga á neyslu hvalkjöts og hafi eftirspurn eftir hvalkjöti í Noregi ekki verið jafndræm frá því að hvalveiðar hófust þar á ný fyrir 14 árum. Kemur tilkynningin eftir umræður undanfarinna vikna um hugsanlegar atvinnuveiðar hér á landi en sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji taka þær upp aftur.

"Sú stefna sjávarútvegsráðherra að gera hvali að blóraböggli fyrir laka stöðu þorskstofnsins samræmist ekki vísindalegum vinnubrögðum. Sé ráðherra alvara með að byggja upp þorskstofninn ber honum að fara að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og draga úr sókn með því að lækka aflareglu fyrir þorskstofninn úr 25% af veiðistofni í undir 20% af stofninum árlega. Því miður hefur ráðherrann hafnað þeirri ráðgjöf vísindamanna," segir einnig í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×