Innlent

Tveir bankar spá óbreyttum stýrivöxtum

Landsbankinn.
Landsbankinn.

Greiningardeildir Landsbankans og Glitnis spá því báðar að Seðlabankinn ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum í 14 prósentum á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans í næstu viku, 21. desember næstkomandi. Þetta er þvert á fyrri spár bankanna sem gerðu ráð fyrir 25-50 punkta hækkun.

Greiningardeildirnar segja báðar, að tölur um hagvöxt sem Hagstofan birti í morgun valdi því að dragi úr líkum á hækkun stýrivaxta. Glitnir setur þann fyrirvara þó við spánna, að stýrivextir gætu hækkað um 25 punkta.

Í verðbólguspá Landsbankans segir að greiningardeildin geri ráð fyrir að verðbólga verði um 2,7 prósent eftir 24-26 mánuði og telur, með tilvísun í tölur Hagstofunnar frá í morgun, að of seint sé að hækka vexti nú.

Þá segir greiningardeild Landsbankans að lykilatriði sé að sá rökstuðningur sem Seðlabankinn birtir með ákvörðun sinni 21. desember næstkomandi verði að vera í takt við ákvörðunina. „Síðast ákvað bankastjórn að halda stýrivöxtum óbreyttum, en samhliða var birt greining sem í raun var rökstuðningur fyrir hækkun. Þetta er afar óheppilegt fyrir trúverðugleika Seðlabankans," segir greiningardeild Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×