Íslenski boltinn

Þakka FH-ingum kærlega fyrir

Leifur Garðarsson var allt annað en sáttur með spilamennsku Fylkis í Eyjum í gær.
Leifur Garðarsson var allt annað en sáttur með spilamennsku Fylkis í Eyjum í gær.

Þrátt fyrir að vera í fimmta sæti fyrir 18.umferð Landsbankadeildarinnar gátu Fylkismenn mögulega fallið ef úrslitin spiluðust þannig í lokaumferðinni. Árbæjarliðið þurfti því að mæta ákveðið til leiks gegn ÍBV sem höfðu að engu að keppa enda fallnir í 1. deild.

Það voru samt leikmenn ÍBV sem voru sprækari allt frá fyrstu mínútu leiksins og gáfu Fylkismönnum aldrei möguleika á að komast inn í leikinn. Lokatölur urðu 2-0, heimamönnum í vil, og að lokum gátu Fylkismenn þakkað FH-ingum fyrir að hafa náð í stig í Grindavík.

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, hélt sér við þá taktík að hafa stóran mann í fremstu víglínu þrátt fyrir að Andri Ólafsson væri í banni en hann færði Bjarna Hólm Aðalsteinsson í stöðu framherja og hann átti fyrsta hættulega færið í leiknum en skot hans hafnaði í stönginni.  Eyjamenn héldu áfram að pressa og eftir þunga sókn á 13. mínútu endaði boltinn í netinu hjá Fjalari markverði Fylkis og var það Bjarni Rúnar Einarsson sem skilaði honum þangað.  Eftir markið komust Fylkismenn aðeins inn í leikinn án þess þó að ógna hinum 15 ára markverði ÍBV, Elíasi Fannari Stefnissyni, verulega. Á 35. mínútu má svo segja að Ingi Rafn Ingibergsson hafi gert út um leikinn þegar hann bætti við öðru marki ÍBV og virtist með því slökkva endanlega í vonum Fylkismanna um að sækja stig á Hásteinsvelli.

Í seinni hálfleik héldu leikmenn ÍBV uppteknum hætti og sóttu að krafti en Fylkismenn virtust frekar treysta á að úrslit úr öðrum leikjum héldu þeim í efstu deild.  Það mátti samt litlu muna því hefði Grindavík tekist að skora á lokamínútunum á heimavelli sínum gegn FH hefði Árbæjarliðið fallið með ÍBV.  Bjarni Hólm Aðalsteinsson átti hættulegasta færi Eyjamanna í seinni hálfleik þegar hann slapp einn inn fyrir vörn Fylkis en Fjalar sá við honum.  Elías Fannar þurfti einu sinni að taka á honum stóra sínum í marki ÍBV þegar Páll Einarsson átti góðan skalla að marki sem markvörðurinn sló í slánna. Lokatölur á Hásteinsvelli 2-0 í síðasta leik ÍBV í efstu deild að sinni.

"Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég með óbragð í munninum eftir þennan leik. Við mættum aldrei til leiks í dag og það að treysta á einhverja aðra til að halda okkur uppi er mjög dapurt," sagði Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, daufir í bragði eftir slakann leik sinna manna í Eyjum.  Honum var samt létt þegar hann heyrði lokatölurnar í Grindavík.

"Auðvitað var gott að heyra lokatölurnar og ég þakka FH-ingum kærlega fyrir þau, það er þó hægt að brosa út í annað á leiðinni heim.  Hins vegar er alveg ljóst að við þurfum að vinna í okkar málum á næstunni, þetta var mjög, mjög lélegt í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×