Innlent

Dregur úr veiði á stórum urriða

Heldur hefur dregið úr veiði á stórum urriða í Þingvallavatni. Það gæti bent til þess að ábendingar, sem Þingvallanefnd hafa borist um villimannlegar urriðaveiðar í vatninu, eigi við rök að styðjast.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherar upplýsir í viðtali við Morgunblaðið í morgun að nú liggi fyrir að menn fari um Þingvallavatn á bátum með nákvæm fiskileitartæki og leiti uppi stóra urriða. Þeir egni síðan fyrir hann með groddalegum beitum, sem minni einna helst á útlendar geddubeitur, með mörgum þríkrækjum, og húkki urriðan jafn vel upp úr vatninu, en svo nefnist þegar önglar krækjast einhvernstaðar í fiskinn þannig að hægt er að draga þá upp án þess að þeir hafi bitið á agn.

Björn segir að aðferðir sem þessar geti fljótt gengið nærri urriðastofninum og eyðilagt það vel heppnaða uppbyggingastarf, sem verið sé að vinna. Jóhannes Sveinbjörnsson bóndi á Heiðarbæ og formaður veiðifélags Þingvallavatns, sagði í viðtali við fréttastofuna að hann hefði af og til heyrt af slíku, sem Björn lýsir, en hafi engar staðfestingar í höndum. Bændur við vatnið reyni að fygljast með fyrir löndum sínum, en hafi engin tök á að fylgjast með atferli veiðimanna um allt vatn.

Þrátt fyrir upplýsingar Björns hefur lögreglan í Árnessýslu ekki fengið slík mál til rannsóknar, enn sem komið er, þótt frásagnir af slíku hafi borist lögreglunni til eyrna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×