Erlent

Leiðtogi Rauðu Kmerana látinn

Helsti hugmyndafræðingur Rauðu kmeranna í Kambódíu lést í morgun. Nærri tvær milljónir manna létust úr hungri og vosbúð á meðan ógnarstjórn kmeranna stóð yfir.

Ta Mok hafði verið í stofufangelsi síðan árið 1999 og þar lést hann í morgun, áttræður að aldri. Hann var einn af helstu leiðtogum Rauðu Kmeranna og yfirmaður hersins á meðan Kmerarnir voru við völd. Mok var kallaður slátrarinn, enda átti hann beinan þátt í víðtækum fjöldamorðum í Kambódíu á sjöunda áratugnum. Rauðu Kmerarnir frömdu víðtæk þjóðarmorð í Kambódíu á sjöunda áratugnum, þegar þeir ætluðu sér að gera landið að maóískri paradís.

Talið er að nærri tvær milljónir manna hafi látist úr hungri og vosbúð á meðan landið var undir stjórn Pol Pot á þessu tímabili. Ta Mok var einn af þeim fyrstu sem átti að draga fyrir alþjóðadómstól fyrir glæpi gegn mannkyni. Réttarhöldin áttu að hefjast á næsta ári, en nú verður í það minnsta ekki réttar yfir Mok og margir hinna sem á að draga fyrir alþjóðadómstólinn, eru líka komnir á aldur og því ekki ólíklegt að þeir fari yfir móðuna miklu áður en réttlætið nær fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×