Innlent

Ísland í tólfta sæti listans

Í skýrslunni segir að Ísland standi framarlega hvað varðar vernd eignarréttar.
Í skýrslunni segir að Ísland standi framarlega hvað varðar vernd eignarréttar.

Ísland er í tólfta sæti yfir lönd þar sem auðvelt er að reka fyrirtæki. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðabankans þar sem kannað var hversu auðvelt er að reka fyrirtæki í 175 löndum. Áður var Ísland í ellefta sæti.

Þau lönd sem standa Íslandi framar eru Singapúr, Nýja-Sjáland, Bandaríkin, Kanada, Hong Kong, Bretland, Danmörk, Ástralía, Noregur, Írland og Japan. Samkvæmt skýrslunni er erfiðast að reka fyrirtæki í Kongó, Austur-Tímor og Gínea-Bissá.

Þar segir að Ísland standi framarlega hvað varðar vernd eignarréttar og einnig þykir auðvelt að fá samningum framfylgt hérlendis. Það sem erfiðar rekstrarskilyrði hérlendis er talið vera erfiðleikar við að ráða og reka starfsfólk. Þá þykir Ísland standa öðrum löndum að baki hvað varðar vernd fjárfesta.

Melissa Johns, sérfræðingur hjá Alþjóðabankanum, er væntanleg hingað til lands eftir helgi. Hún mun kynna skýrsluna á morgunverðarfundi á Grand Hóteli á þriðjudag sem Viðskiptaráð Íslands, utanríkisráðuneytið, Alþjóðabankinn og Þróunarsamvinnustofnun standa sameiginlega fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×