Innlent

Þjóðskrá frá Hagstofu til dómsmálaráðuneytis

MYND/Stefán

Þjóðskráin verður flutt frá Hagstofunni til dómsmálaráðuneytisins 1. maí næstkomandi ef frumvarp forsætisráðherra þar að lútandi nær fram að ganga. Ætlunin með þessu er að skilja betur milli hagskýrslugerðar og stjórnsýslustarfsemi að sögn hagstofustjóra.

Þjóðskráin hefur heyrt undir Hagstofuna frá því að hún var stofnuð árið 1953 en nú verður breyting á samkvæmt frumvarpi um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi á föstudag.

Flutningurinn er að frumkvæði Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra sem segir að þjóðskráin þyki eiga betur heima innan stjórnsýslunnar en á Hagstofunni þar sem hagskýrslugerð og ýmiss konar tölfræði er unnin. Þjóðskráin sé stjórnvaldsskrá sem notuð sé í ýmiss konar sifjaréttarlegum málum sem heyri undir dómsmálaráðuneytið. Þá standi til að virkja þjóðskrána betur við útgáfu vegabréfa, en sú útgáfa heyrir undir dómsmálaráðuneytið.

Aðspurður segir Hallgrímur að flutningur þjóðskrárinnar tengist ekki á nokkurn hátt fyrirhugaðri greiningardeild innan ríkislögreglustjóra sem meðal annars er ætlað að leggja mat á hættu vegna hryðjuverka og stjórnarandstöðuþingmenn hafa kallað vísi að leynilögreglu. Hallgrímur segir hugmyndir um flutning skrárinnar hafi komið upp í haust og hann hafi ekki vitað af frumvarpi dómsmálaráðherra sem lýtur að greiningardeildinni.

Hallgrímur segir enn fremur að þjóðskráin verði rekin á sama hátt og verið hafi, að minnsta kosti fyrst um sinn, og að hún verði áfram í Borgartúni. Frumvarpið er nú til kynningar hjá þingflokkum og verður væntanlega lagt fram á næstu dögum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×