Erlent

Völdum rænt í fjórða sinn á 19 árum

Frank Bainimarama, herforingi og leiðtogi valdaránsmanna, á blaðamannafundi í Suva, höfuðborg Fídji-eyja, í dag.
Frank Bainimarama, herforingi og leiðtogi valdaránsmanna, á blaðamannafundi í Suva, höfuðborg Fídji-eyja, í dag. MYND/AP

Herinn á Fídji-eyjum rændi völdum í nótt og hneppti forsætisráðherra landsins í stofufangelsi. Forseti Fiji-eyja segist ekki styðja valdaránsmenn.

Þetta er í fjórða sinn á 19 árum sem völdum er rænt á Fídji-eyjum. Fyrir valdaránsmönnum fer Frank Bainimarama, hershöfðingi, sem hefur eldað grátt silfur við Laisenia Qarase, forsætisráðherra, síðustu mánuði, meðal annars vegna ákvörðunar þess síðarnefnda að náða þá sem rændu völdum á eyjunum fyrir sex árum. Bainimarama hefur tekið sér völd forseta að hluta en heitið því að afsala sér þeim í næstu viku aftur til Ratu Josefa Iloilo.

Bainimarama hefur rekið forsætisráðherrann og hneppt hann í stofufangelsi og er búist við að Iloilo skipi bráðabirgðastjórn í næstu viku og síðan yrði aftur kosið til þings. Bainimarama segir aðgerðir hersins samræmast lögum á Fídji-eyjum og hann hafi orðið að grípa til þessa úrræðis þar sem forsætisráðherrann væri að grafa undan stjórnarskrá landsins. Þrátt fyrir yfirlýsingu Bainimarama er haft eftir Iloilo forseta að hann styðji ekki aðgerðir hersins.

John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í morgun að hann harmaði atburðina á Fídji-eyjum og útilokaði hernaðaraðgerðir af hálfu Ástrala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×