Innlent

RÚV í viðræðum um EM 2008

Grikkir fagna. Grikkir urðu Evrópumeistarar árið 2004 þegar keppnin fór fram í Portúgal.
Grikkir fagna. Grikkir urðu Evrópumeistarar árið 2004 þegar keppnin fór fram í Portúgal.

Ríkisútvarpið er komið í formlegar viðræður um kaup á sýningarrétti á Evrópukeppninni í knattspyrnu 2008 sem fram fer í Sviss og Austurríki. Sýn og Skjá­sport sóttust einnig eftir réttinum, en nú stefnir allt í að RÚV hreppi hnossið.

„Við höfum ekki viljað keppa við einkastöðvarnar um deildarkeppnir í knattspyrnu, en við erum inni í myndinni þegar kemur að Ólympíuleikum, Evrópukeppnum og heimsmeistaramótum þar sem landslið eiga í hlut,“ segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. „Það er kannski ekki líklegt eftir útreið okkar í Lettlandi á laugardaginn, en það er fræðilegur möguleiki að Íslendingar komist á mótið. Við höfum viljað fylgja íslenskum landsliðum eftir á stórmótum.“

Nýverið var Ríkisútvarpinu boðið til viðræðna við Knattspyrnusamband Evrópu og Sport 5. „Þetta er ekki komið í höfn, en við höfum 60 daga til viðræðna.“

Páll vildi hvorki neita því né staðfesta að kostnaðurinn við sýningarréttinn væri um 100 milljónir króna. „Tilboðið er metið út frá fleiri þáttum en verðinu, til dæmis hversu marga leiki sjónvarpsstöðin er tilbúin að sýna í opinni dagskrá. Ég geri ráð fyrir að sjónvarpsútsendingar okkar verði komnar í stafrænt form fyrir árið 2008, sem gerir okkur tæknilega mögulegt að leysa árekstra í dagskrá eða sýna tvo leiki samtímis,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×