Viðskipti erlent

Íranskur banki á svörtum lista

Stuart Levey segir íranska bankann Saderat hafa séð um millifærslur á fjármunum til hryðjuverkasamtaka.
Stuart Levey segir íranska bankann Saderat hafa séð um millifærslur á fjármunum til hryðjuverkasamtaka. MYND/AFP

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sett íranska ríkisbankann Saderat á svartan lista vestanhafs. Að sögn Stuarts Levey, yfirmanns deildar innan bandaríska fjármálaráðuneytisins sem sér um mál er tengjast hryðjuverkastarfsemi og fjármálanjósnum, er bankinn grunaður um að hafa millifært fjármuni til hryðjuverkasamtaka.

Saderat-bankinn hefur ekki haft formlega starfsemi í Bandaríkjunum en honum hefur verið kleift að flytja peninga til og frá Bandaríkjunum.

Levey sagði í síðustu viku að fjármálastofnanir í Bandaríkjunum hefðu skorið á öll samskipti við bankann, sem er einn sá stærsti í Íran, vegna færslna á tugmilljónum Bandaríkjadala til ýmissa hryðjuverkasamtaka, meðal annars Hezbollah-samtakanna í Líbanon, í gegnum árin.

Kvartanir vegna þessa hafa hvorki borist frá ráðamönnum í Íran né forsvarsmönnum bankans vegna þessa, að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC.

Viðmælendur útvarpsins segja hins vegar að bankinn hafi þjónað mikilvægu hlutverki sem milliliður fyrir viðskipti Írana við markaði víða um heim. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×