Innlent

Ofsaakstur ógnar börnum á leið í skóla

MYND/Stefán

Langflestir þeirra sem lögreglan hefur stöðvað vegna hraðaksturs í íbúðagötu í Breiðholtinu á síðustu dögum hafa verið á tvöföldum hámarkshraða. Lögreglan hefur þungar áhyggjur af ofsaakstri þar sem börn eru á leið í skóla.

Lögreglan í Reykjavík hefur haldið uppi stífu umferðareftirliti í grennd við grunnskóla borgarinnar undanfarna daga. Í þeim hverfum þar sem hún hefur verið að hraðamæla er hámarkshraði þrjátíu kílómetrar á klukkustund sem þýðir að fari einhver yfir sextíu kílómetra hraða getur hann átt von á ökuleyfissviptingu.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, segir það sláandi að á milli 70% til 90% þeirra sem stöðvaðir hafa verið vegna hraðaaksturs við Arnarbaka í Breiðholti síðustu daga hafa verið á tvöföldum hámarkshraða. Þessir einstaklingar eiga því von á því að missa ökuleyfi sitt. Hann segir þetta sérstaklega valda áhyggjum í ljósi þess að mörg börn á leið í skóla fara daglega yfir þessa götu.

Margir afsaka hraðaaksturinn með því að þeir hafi hreinlega ekki séð merkingarnar. Guðbrandur segir merkingar góðar við götuna og þær ættu ekki að fara fram hjá neinum.

Nokkrar hraðahindranir eru í hverfinu og virðast þær ekki skila nægum árangri. Guðbrandur segir að fólk hægi einungis á sér þegar það komi að hraðahindrunum en gefi svo í á milli þeirra. Lögreglan hefur mælt bifreiðar á allt að sjötíu og átta kílómetra hraða við þessa götu.

Lögreglan hyggst halda áfram öflugu eftirliti við skólana næstu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×