Innlent

Gaf safninu ágrip úr dagbókum sínum frá stríðsárunum

Það hefur mikið breyst á Reyðarfirði síðan Davies var þar við herskyldu fyrir 65 árum síðan.
Það hefur mikið breyst á Reyðarfirði síðan Davies var þar við herskyldu fyrir 65 árum síðan. Mynd/Vísir

Fyrrum breskur hermaður gaf í dag Íslenska stríðsminjasafninu á Reyðarfirði teikningar og ljósmyndir frá þeim tíma er hann dvaldist hér á landi við herskyldu fyrir sextíu og fimm árum. Hann segir mikið hafa breyst á þeim tíma en fjöllunum hafi hann þó aldrei gleymt.

Ron Davies var meðal þeirra bresku hermanna sem komu til landsins árið 1941, þá 21 árs að aldri. Hermennirnir dvöldu á Reyðarfirði, eða Búðareyri, líkt og bærinn kallaðist í þá daga. Hann segir hermennina hafa verið við þjálfun og æfingar flest alla daga en í frítíma sínum hafi þeir farið á kaffihús í bænum og gætt sér á fisk og frönskum kartöflum. Þá hafi þeir gengið mikið á fjöll, í frítíma sínum og þegar þeir voru við þjálfun. Davies dvaldi á Búðareyri í ellefu mánuði. Hann hefur lengi haft áhuga á að koma aftur til landsins en hann er hér í boði Hafþórs Hafsteinssonar, forstjóra flugrekstrarsviðs Avion Group. Davies færði íslenska stríðsminjasafninu í dag ágrip úr dagbókum sínum, sem og ljósmyndir og teikningar sem hann vann á þegar hann dvaldist hér á landi. Hann segir mikið hafa breyst síðan hann dvaldi á Búðareyri sem ungur hermaður.

Þrátt fyrir háan aldur er Davies enn að störfum en hann er þekktur sem einn helsti sérfræðingur í sögu atvinnuflugs í heiminum og hefur skrifað fjölda bóka um sögu atvinnuflugs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×