Innlent

Samtök gegn nauðgunum

Mynd/Valgarður Gíslason

Karlahópur Femínistafélags Íslands og V-dags samtökin hafa tekið höndum saman gegn nauðgunum um Verslunarmannahelgina.

Karlahópur Femínistafélags Íslands ætlar ekki að láta sitt eftir liggja um Verslunarmannahelgina. Tugir sjálfboðaliða munu vera sýnilegir í verslunum ÁTVR, á BSÍ, og í Flugstöð Reykjavíkur. Eins fer átta manna hópur til Vestmannaeyja. Sjálfboðaliðarnir ætla að dreifa út svifdiskum, barrmerkjum og bæklingum með upplýsingum um eðli og alvarleika nauðgana. Markmið hópsins er að spjalla við karlmenn og vekja upp almenna umræðu um alvarleika nauðgana og eins uppræta goðsagnir sem til eru um nauðganir. Vonast karlahópurinn til þess að með því að starta umræðum meðal karlmanna, muni menn taka boðskapinn með sér og halda umræðum áfram innan fjölskyldu sinnar og vinahópa.

V-dags samtökin leggja líka hönd á plóginn og í ár hafa samtökin ráðist í auglýsingaherferð sem nú þegar má sjá á strætóskýlum borgarinnar. Herferðinni er beint að gerendum kynferðisofbeldis að þessu sinni með spurningunni "Ertu klikkaður í rúminu?". Samtökin vilja í ár ekki tala til kvenna eins og áður hefur verið gert, heldur beina þau orðum sínum til karlmanna og minna þá á að það er munur á kynlífi og nauðgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×