Sport

Ósáttur við miðastuldinn

Frá úrslitaleik Manchester United og Arsenal í enska bikarnum á Þúsaldarvellinum í fyrra
Frá úrslitaleik Manchester United og Arsenal í enska bikarnum á Þúsaldarvellinum í fyrra NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez hefur skorað á enska knattspyrnusambandið að bregðast betur við atburðunum sem áttu sér stað á föstudaginn síðasta, þegar 1600 miðum á úrslitaleik Liverpool og West Ham í enska bikarnum var stolið í Liverpool. Benitez segir lið sitt ekki mega við því að missa þessa stuðningsmenn af pöllunum um helgina.

Beiðninni um að miðarnir yrðu prentaðir upp á nýtt og sendir til þeirra sem keyptu þá var hafnað og sitja því stuðningsmennirnir í súpunni, því fólk sem ekki á miða á leikinn í Cardiff um helgina hefur verið varað við því að fara til Wales og reyna að kaupa miða fyrir utan leikvanginn. Þessi niðurstaða er mjög blóðug fyrir stuðningsmenn Liverpool að mati Rafa Benitez.

"Þetta er afar ósanngjarnt. Knattspyrnusambandið hreinlega verður að finna lausn á þessu óheppilega vandamáli, því við megum ekki við því að missa þessa stuðningsmenn af pöllunum. Ef þú hefur stutt við bakið á liðinu í allan vetur á öllum leikjum og átt miða á þennan leik - áttu auðvitað að fá að vera á meðal áhorfenda um helgina," sagði Benitez.

Rick Parry, stjórnarformaður Liverpool er á sama máli. "Ákvörðun forráðamanna Þúsaldarvallarins að gera ekki nýja miða í stað þeirra sem stolið var er algerlega óásættanleg og kemur niður á saklausum stuðningsmönnum sem urðu fórnarlömb ránsins á föstudaginn," sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×